Allt starf Kópavogsskóla mótast af uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Skólareglurnar voru endurskoðaðar samhliða vinnu við Uppeldi til ábyrgðar, þær gerðar ítarlegri og settar inn skýringar svo allir aðilar átti sig á þeim vinnubrögðum sem skólinn viðhefur. Reglurnar með skýringum eru öllum aðgengilegar hér á heimasíðu skólans (Umgengnisreglur og skýr mörk). Í þeim er lögð áhersla á þann skólabrag sem leitast er við að skapa og þau atriði tilgreind í upphafi:
Í Kópavogsskóla er lögð áhersla á að allir:
- komi fram af tillitssemi og kurteisi
- virði vinnu annarra
- sinni hlutverki sínu af kostgæfni
- leggi áherslu á heilbrigða lífsýn
- Ofbeldi, andlegt eða líkamlegt, er ekki liðið í Kópavogsskóla.
- Nemendum ber að fara eftir fyrirmælum starfsmanna.
- Virða skal tímasetningar í skólastarfinu.
- Nemendur leggi áherslu á góða námsástundun.
- Ganga skal vel og þrifalega um skólann.
- Nemendum er ekki heimilt að yfirgefa skólalóð á skólatíma nema með sérstöku leyfi.
- Nemendur eða forráðamenn þeirra eru ábyrgir fyrir skemmdum, tjóni eða slysum sem nemendur kunna að valda.
Vinnureglur og viðurlög við brotum - þrep
- Við brot á skólareglum ræðir starfsmaður við nemandann um brotið.
- Umsjónarkennari ræðir við nemandann.
- Umsjónarkennari/kennari hefur samband við foreldra.
- Umsjónarkennari boðar nemanda og foreldra í viðtal.
- Umsjónarkennari boðar nemanda og foreldra í viðtal með skólastjórnanda.
- Við alvarleg brot getur nemanda verið vísað úr skóla á meðan mál hans er í vinnslu*.
Skólastjórnandi getur komið að málum á öllum stigum sé þess óskað.
*Ávallt skal gætt meðalhófs og andmælaréttar í samræmi við Stjórnsýslulög nr. 37/1993.
Námsráðgjafi er trúnaðarmaður nemenda og getur verið þeim til aðstoðar.
Reglur um notkun GSM-síma
Nemendum unglingastigs er heimilt að vera með og nota GSM-síma í skólanum fari þeir eftir eftirfarandi reglum. Þeim sem ekki treysta sér til að fara eftir reglunum er óheimilt að vera með síma í skólanum.
- Símarnir eru á ábyrgð nemenda í skólanum. Tjón vegna þjófnaðar eða skemmda verður ekki bætt af hálfu skólans.
- Í kennslustundum er öll notkun GSM-síma bönnuð nema með leyfi kennara.
- Ekki er heimilt að nýta símana til að taka upp eða dreifa efni úr skólastarfinu.
- Verði nemandi uppvís að notkun síma í kennslustundum skal hann afhenda viðkomandi kennara símann.
- Við fyrsta brot fær nemandinn símann afhentan í lok skóladags. Við annað brot þarf foreldri að sækja símann í skólann. Við síendurtekin brot og/eða misnotkun á GSM-símum geta skólastjórar bannað viðkomandi nemanda að vera með síma í skólanum í styttri eða lengri tíma.