Kópavogsskóli leitast við að vanda móttöku nýrra nemenda eins og kostur er. Jákvæð upplifun af skólakynningu getur haft mótandi áhrif á skólagöngu nemenda og því mikilvægt að vel takist til.
Deildarstjóri yngsta stigs skipuleggur skólaheimsóknir verðandi 1. bekkinga í samstarfi við leikskólana. Nemendur væntanlegs í 1. bekk koma þrjár heimsóknir með leikskólanum sínum. Þá er þeim sýndur skólinn og þeir fara í sögustund á bókasafni taka þátt í verkefnum með 1. bekkingum. Síðan koma nemendur í vorskóla í maí og hitta þá umsjónarkennara sína, vinna verkefni og kynnast skólanum og skólalóðinni betur. Um leið og foreldri skráir barn í skólann fær viðkomandi deildarstjóri umsóknina til vinnslu og ákveður í hvaða deild nemandinn á að fara. Nemendur og foreldrar þeirra fá bréf frá skólanum þar sem þau eru boðin velkomin ásamt boðuðum viðtalstíma. Nemendur og foreldrar/forráðamenn koma í viðtal til umsjónarkennara bekkjarins á fyrsta degi skólans. Í september er haustfundur fyrir foreldra þar sem starfsemi skólans er kynnt nánar og umsjónakennarar eru með námskynningu. Í október fara svo nemendur 1. bekkjar í heimsókn í leikskólana sem næstir eru skólanum ásamt umsjónarkennara.
Um er að ræða nemendur sem eru með sérstakar þarfir tengdar námi. Sálfræðimat þarf að fylgja þessum nemendum til þess að hægt sé að skoða málin heildstætt og meta þarfir hvers og eins. Oft fær nemandi aðstoð stuðningsfulltrúa í upphafi en þörfin fyrir aðstoð er svo metin jafnt og þétt, hvort viðkomandi hafi þörf fyrir meiri eða minni stuðning. Eftir að nemandi hefur nám við skólann og umsjónarkennari hefur kynnst þörfum hans betur, er útbúin einstaklingsnámskrá sem er kynnt foreldrum á fundi.
Við skólann er starfrækt sérdeild (námsver) sem ætluð er seinfærum nemendum. Nemendaverndarráð sér um inntöku nemenda í sérdeildina, en hún tekur einnig við nemendum úr öðrum skólahverfum. Foreldrar og/eða heimaskóli nemandans koma og kynna sér starfsemi námsversins. Hafi þeir hug á, skila þeir inn umsókn. Greiningar verða að liggja að baki umsókn nemanda um skólavist. Umsóknin er svo tekin fyrir í nemendaverndarráði og situr sérkennslufulltrúi Kópavogs fundinn fyrir hönd menntasviðs bæjarins. Þegar nemandinn hefur hlotið inngöngu í námsverið kemur hann ásamt foreldrum/forráðamönnum og skoðar skólann og stofu þess bekkjar sem hann mun tilheyra sem og þau rými sem nemandinn sækir á skólatíma. Húsakynni námsversins eru skoðuð, farið yfir vinnuskipulag og nemendahópur kynntur lauslega. Starfsfólk sérdeildar, tilvonandi umsjónarkennari, foreldrar, fulltrúar heimaskóla og greiningaraðilar funda. Þar er farið yfir greiningar og praktísk atriði varðandi skólagönguna, t.d. mentor, skólamáltíðir, komu nemandans í skólann, vinnu fyrstu dagana, stundaskrá o.fl. Bekkjarfélögum og starfsmönnum skólans er tilkynnt um komu nemandans. Mikilvægt er að hafa í huga að einstaklingsmunur er á því hvernig fyrstu dögunum er háttað í sérdeildinni (námsverinu). Sem dæmi má nefna að sumir nemendur fá fylgd úr heimaskóla sínum og eru aðeins hluta dags í námsveri, aðrir byrja á því að vera skertan skólatíma eða að nemandinn byrji strax fullan skólatíma. Sérstakar starfsreglur eru til um námsver Kópavogsskóla og þær má nálgast hér.
Um leið og foreldri skráir barn í skólann fær viðkomandi deildarstjóri umsóknina til vinnslu og ákveður í hvaða deild nemandinn á að fara. Nemandi og foreldrar eru boðuð á fund til deildarstjóra og umsjónarkennara þar sem farið er yfir upplýsingar um nemandann og sérþarfir hans ef einhverjar eru og síðan er þeim er kynntur skólinn og starfsemi hans. Reynt er að hafa kynninguna seinni hluta dags því þá er áreitið yfirleitt minnst. Farið er yfir öll þau atriði sem varða skólagöngu nemandans s.s. starfsemi skólans, aðgang að Mentor, skólamáltíðir, bekkjarfélaga, stundaskrá, félagsstörf, heimasíðu skólans og annað sem kemur upp í umræðunni. Síðan er gengið um skólann og húsnæðið kynnt með sérstakri áherslu á þau rými sem nemandinn sækir á skólatímanum. Bekkjarfélögum er tilkynnt um komu nýs bekkjarfélaga áður en hann kemur og þau undirbúin fyrir móttöku hans ef nemandi hefur nám eftir að skóli hefst að hausti.
Reynt er að koma til móts við þarfir nemenda með íslensku sem annað tungumál með kennslu sérhæfðs kennara og aðstoðar stuðningsfulltrúa og annars starfsfólks og nemenda í daglegu starfi. Allir fundir með foreldrum eru haldnir með aðstoð túlka en sú aðstoð er ekki síður fyrir starfsfólk skólans en nemendurna og foreldra þeirra. Kópavogsskóli nýtir sér ráðgjöf sérhæfðs ráðgjafa frá menntasviði Kópavogsbæjar og í auknum mæli er farið að notast við smáforrit og tölvur í kennslu og aðstoð við nemendurna.
Heitið snúbúi er stundum notað yfir Íslendinga sem snúa aftur til Íslands eftir dvöl erlendis. Nemendur sem snúa aftur til Íslands hafa sumir hverjir tapað niður íslenskunni og hjá öðrum vantar töluvert upp á orðaforða og hugtakaskilning. Þekking á íslensku máli er metin og einstaklingsnámskrá útbúin sé þess þörf og hún kynnt foreldrum.