Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu

Spjaldtölvur í grunnskólum Kópavogs
Spjaldtölvur í grunnskólum Kópavogs

Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu

1. Spjaldtölvan sem skilmálar þessir taka til er eign Kópavogsbæjar. Nemandinn hefur afnot af spjaldtölvu á starfstíma skóla, svo lengi sem nemandinn er skráður í grunnskóla í Kópavogi. Í lok hvers skólaárs skal nemandi skila spjaldtölvunni til skóla. Þegar spjaldtölvunni er skilað skal nemandi skrá sig út af Apple-auðkenni og iCloud-aðgangi sínum í tækinu. 

2. Kópavogsbær áskilur sér rétt til að innkalla spjaldtölvuna tímabundið vegna viðgerða eða þjónustu. Skal nemanda þá úthlutað láns spjaldtölvu á meðan svo ekki verði truflun á námi nemandans. 

Komi upp grunur um misnotkun eða brot á skilmálum þessum getur skóli, að höfðu samráði við foreldra/forráðamenn, óskað eftir að spjaldtölva sé innkölluð til að hreinsa af því óæskileg gögn eða yfirfara notkun.

3. Kópavogsbær setur upp á spjaldtölvunni forstillingar sem leyfa umsýslu og utanumhald sem nauðsynleg eru til að hægt sé að þjónusta spjaldtölvuna. Tækið er skráð í umsýslukerfi sem gerir kleift að senda námsefni og hugbúnað á spjaldtölvuna. Kópavogsbær annast þjónustu við spjaldtölvuna, þar með talið skráningu hennar á þráðlaust net í skóla samkvæmt reglum sem um það gilda. 

4. Kópavogsbær sér um að stofna þá aðganga sem nemandi þarf til að nota í námi. Tæknistjóri og deildarstjórar í upplýsingatækni í hverjum skóla hafa aðgang að innskráningarupplýsingum nemenda.

5. Þegar spjaldtölvan er afhent nemanda þarf að slá inn á tækinu lykilnúmer (passcode) sem Kópavogsbær úthlutar og notað er til að opna spjaldtölvuna. Umsjónarkennari og nemandi ásamt foreldrum/forráðamönnum fá þetta númer afhent.

6. Nemanda er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi í 5.-10. bekk en skal hafa hana með sér í skólann á hverjum degi, fullhlaðna. Nemandi ber ábyrgð á sínu hleðslutæki og snúru og er mælst til þess að það sé geymt heima. Glatist eða skemmist hleðslutæki og/eða snúra ber nemanda að útvega nýtt á eigin kostnað. Notkun spjaldtölvunnar heima fyrir til leikja eða tómstundaiðkunar skal vera í samráði við foreldra og skal nemandi fylgja þeim reglum sem foreldrar setja. Komi í ljós að mati skólans eða foreldra/forráðamanna að nemandi eigi í erfiðleikum með að fylgja reglum foreldra geta foreldrar/forráðamenn eða skóli ákveðið að spjaldtölvan sé geymd í skólanum. 

7. Nemandinn og foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á meðferð og notkun spjaldtölvunnar meðan nemandinn hefur hana til afnota. Nemandi skal gæta þess að fara vel með spjaldtölvuna og sýna ábyrgð í notkun hennar. Komi í ljós að mati skólans eða foreldra/forráðamanna að nemandi eigi í erfiðleikum með þessa ábyrgð geta foreldrar/forráðamenn eða skóli ákveðið að tækið sé geymt í skólanum. 

8. Nemandi fær eitt hulstur afhent með spjaldtölvunni og ekki er heimilt að taka hana úr hulstrinu. Nemanda er heimilt að merkja hulstrið að vild án þess þó að eyðileggja það. 

9. Undir engum kringumstæðum má nota spjaldtölvuna á ólöglegan hátt. Ekki má setja í hana stolin forrit eða forrit sem breyta stýrikerfi þess eða stillingum. Nemandi skal fara að reglum skóla hvað varðar myndatökur og myndbirtingar. 

10. Í spjaldtölvunni er námsefni og ýmis konar hugbúnaður (öpp) sem ætlaður er til náms. Nemendur hafa ekki aðgang að App Store. Öllum öppum í spjaldtölvum nemenda er dreift með umsýslukerfi bæjarins sem er miðlægt kerfi í umsjón UT deildar. Þegar spjaldtölvunni er skilað í lok skólaárs ber nemandi ábyrgð á að vista persónuleg gögn annars staðar, þar sem spjaldtölvan getur verið uppfærð og enduruppsett áður en hún er afhent á næsta skólaári og eyðast þá öll gögn af spjaldtölvunni. 

11. Ef spjaldtölvan bilar eða skemmist, týnist eða henni er stolið skal tilkynna það strax til skólans og útvegar Kópavogsbær nemandanum spjaldtölvu í staðinn. Nemendur og foreldrar/forsjáraðilar bera ekki fjárhagslega ábyrgð þótt tækið glatist, skemmist eða verði með öðrum hætti ónothæft. Ef um vísvitandi skemmdarverk, verulega vanrækslu er að ræða eða ef námstæki er ekki skilað ber foreldrum/forsjáraðilum að bæta skólanum tækið fyrir hönd nemanda. Ef spjaldtölva er tilkynnt týnd eða stolin er starfsfólki Kópavogsbæjar heimilt að nýta staðsetningarmerki (Find my iPad) til að staðsetja spjaldtölvuna. 

12. Nú færist nemandi á milli skóla innan Kópavogsbæjar. Heldur hann þá áfram sömu afnotum af spjaldtölvunni og annast Kópavogsbær tilfærslu á skráningu spjaldtölvunnar innan tölvukerfis grunnskólanna.  

13. Nú flytur nemandi í annað sveitarfélag og hættir að stunda nám í grunnskólum Kópavogs. Skal hann þá skila spjaldtölvunni til skóla og skrá sig út af Apple-auðkenni og iCloud-aðgangi sínum í spjaldtölvunni.

14. Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir einn mánuð frá útskrift og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta flutt persónuleg gögn af skólaaðgangi sínum yfir á persónulegan aðgang. Nemandinn ber ábyrgð á að bjarga gögnum sínum áður en þeir skila spjaldtölvunni. 

15. Skilmálar þessir eru endurskoðaðir árlega. Breytingar eru tilkynntar á vefsíðum skóla og í netpósti til foreldra/forráðamanna.

Uppfært 25. júní 2024