Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Kópavogi fór fram í Salnum fimmtudaginn 13. apríl. Keppnin haldin í 26. sinn í Kópavogi en keppnin á 27 ára afmæli í ár. Úrslitakeppnir í skólum bæjarins eru svo haldnar í mars en nemendur í 7. bekk taka þátt í þessari keppni.
Í Kópavogsskóla stóðu þrír nemendur uppi sem sigurvegarar, Finnbogi Birkis Kjartansson og Hinrik Gunnarsson voru hlutskarpastir og Karen Erla Atladóttir var varamaður. Anna Björg Pálsdóttir umsjónarkennari 7. bekkjar undirbjó nemendur fyrir keppnina og einnig kom Eggert Kaaber leikari og aðstoðaði þau þrjú sem undirbjuggu sig fyrir keppnina í Salnum.
18 nemendur úr öllum níu grunnskólum kepptu í Salnum í gær og kepptu Finnbogi og Hinrik fyrir hönd skólans. Ljóst var að erfitt yrði að velja á milli lesara, enda margir afbragðsgóðir lesarar þarna á ferð.
Tilkynnt var um niðurstöður þriggja efstu sæta og bar Finnbogi Birkis Kjartansson í 7. bekk Kópavogsskóla sigur úr býtum og lenti í fyrsta sæti. Óskum við honum og öllum þátttakendum innilega til hamingju.
Á meðfylgjandi mynd eru þeir þrír fulltrúar skólans sem báru sigur úr býtum í skólanum, Finnbogi Birkis Kjartansson, Karen Erla Atladóttir og Hinrik Gunnarsson.