09.12.2019
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun frá kl. 15 þriðjudaginn 10. desember. Gul viðvörun verður í gildi frá klukkan 13 – 15 þegar sú appelsínugula tekur við. Engin röskun verður á skólastarfi í fyrramálið en ákveðið hefur verið að virkja röskun á skólastarfi frá kl. 15 og eru foreldar og forráðamenn beðnir um að sækja börn sín í skólann fyrir klukkan 15.
29.11.2019
Dagskrá desembermánaðar er komin út. Smellið á fyrirsögnina til að sjá nánar.
21.11.2019
English below
Laugardaginn 23. nóvember kl 10 - 14:
Hinn árlegi laufabrauðsdagur Foreldrafélags Kópavogsskóla í matsal skólans.
21.11.2019
Allt gekk að óskum við fræðslu 3. bekkjar og frumsýningu fræðslumyndbands við opnun Eldvarnarviku 2019 í Kópavogsskóla.
20.11.2019
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun fræða börn um eldvarnir heimilisins við opnun Eldvarnaátaks Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) í Kópavogsskóla á morgun, fimmtudaginn 21. nóvember kl. 11. Katrín mun jafnframt frumsýna nýja teiknimynd LSS um baráttu Loga og Glóðar við Brennu-Varg. Hún tekur einnig þátt í rýmingaræfingu í skólanum og fær að spreyta sig á að slökkva eld með slökkvitæki undir öruggri handleiðslu slökkviliðsmanns.
Í kjölfar opnunarinnar í Kópavogsskóla heimsækja slökkviliðin um allt land börnin í 3. bekk grunnskólanna og fræða þau um hvernig auka má öryggi á heimilum þeirra með því að efla eldvarnir.
Fyrirtækið Thank You framleiddi teiknimyndina fyrir LSS með stuðningi ýmissa aðila. Myndin byggir á fræðsluefni sem LSS hefur notað í Eldvarnaátakinu undanfarin ár. Hún gerist í Bænum þar sem slökkviálfarnir og tvíburarnir Logi og Glóð hafa getið sér frægðar fyrir björgunarafrek sín með slökkviliðinu. Eldsvoðar hafa verið óvenju tíðir í aðdraganda jólanna og systkinin fer að gruna að brennuvargur sé á ferð. Þau hafa reyndar hinn illgjarna og öfundsjúka Varg sérstaklega grunaðan og fá grun sinn staðfestan þegar þau sjá til hans fara inn um glugga í skjóli myrkurs. Hefst þá barátta þeirra við Brennu-Varg og má um tíma vart á milli sjá hvorir hafa betur. Allt fer þó vel að lokum og Loga og Glóð tekst að koma í veg fyrir að Brennu-Vargur spilli jólunum í Bænum í þetta skiptið.
Í heimsóknum sínum í skólana afhenda slökkviliðin börnunum söguna af Loga, Glóð og Brennu-Vargi ásamt handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og fleira fræðsluefni. Farið er yfir helstu atriði eldvarna á heimilinu með börnunum, svo sem um nauðsyn þess að hafa reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi á heimilinu. Reynslan sýnir að þessir fræðslufundir með börnunum eru mjög áhrifrík leið til að fá þau og foreldra þeirra til að efla eldvarnir heima fyrir.
Eftirtaldir fá sérstakar þakkir LSS fyrir stuðninginn við Eldvarnaátakið og gerð teiknimyndarinnar: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, VÍS hf., Mannvirkjastofnun, Neyðarlínan, Slökkvilið Akureyrar, Brunavarnir Suðurnesja, Brunavarnir Árnessýslu og Slökkvilið Fjarðabyggðar.
Landsamband slökkviliðsmanna.